eðlilega...

...fær þessi torrent deilari sekt. Enda er þetta eini rétti einstaklingurinn til að fara í mál við, frekar en hýsanda heimasíðunnar eða sækjendur torrenta. Það er klárlega hægt að líkja þessu við þjófinn sem dreifir og gefur þýfið - og jafnvel lýgur því til að hann hafi leyfi til að dreifa því eins og í tilviki torrent.is deilenda. Það virðist vera einhver alvarlegur misskilningur hjá fólki í dag, t.d. eins og notendum hjá torrent.is, að þeir séu eitthvað lagalega hultir af því að torrent.is er það. Það er ekki á neinu gráu svæði að dreifa skrám sem fólk hefur ekki leyfi til að dreifa á torrent mátann, það er bara algjörlega ólöglegt. Enn verra er þegar fólk tekur dvd myndirnar sínar, eða þær sem það tekur á leigu útí búð, rippar þær og setur á torrent síður eins og t.d. thevikingbay - það stendur alveg svart á hvítu á þeim dvd myndum að dreifing sé bönnuð, meðan það er kannski ekki alveg ljóst með annað efni sem þú t.d. færð frá einhverjum öðrum torrent síðum. Það er líka eitt að fá afrit af stolinni mynd og afrita hana áfram til fólks - en annað að vera sá sem stelur myndinni, og afrita hana til fólks sem jafnvel heldur að það sé að fá löglegt afrit í hendurnar.

Það virðist allavega vera að margir geri sér ekki grein fyrir því að deiling á höfundarréttarvörðu efni án leyfis til að dreifa því er fullkomlega ólögleg. Væri farið í mál við svoleiðis deilara myndi það mál án nokkurs efa vinnast eins og sannast með þessu sænska dæmi.

Að mínu mati gildir hinsvegar alls ekki það sama um þá sem einungis sækja efni á t.d. torrent.is og setja ekkert efni í leyfisleysi þar inn. Mér finnst það vera meira eins og að taka á móti þýfi sem einhver gefur þér, haldandi að það sé ekki þýfi.

Svo finnst mér torrent síðurnar sjálfar, eins og þá sérstaklega torrent.is með sína skotheldu skilmála, vera fullkomlega löglegar. Að fara í mál við torrent.is er, eins og oft hefur verið talað um, bara eins og að fara í mál við umsjónarmenn kolaportsins fyrir að hýsa aðila sem eru í óþökk kolaportsins að gefa þýfi.

Deiling höfundarréttarvarins efnis í leyfisleysi er hinsvegar ólögleg....


mbl.is Svíi sektaður fyrir að dreifa bíómyndum á netinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

mengunarlaust - eða hitt þó heldur

þetta er nú meira kjaftæðið.  Það virðist sem skilgreiningin á mengun sé bara orðin það að kolefni berist í andrúmsloftið. Menn reyna á köflum svo mikið að sleppa við andrúmsloftsmengun að þeir menga bara eitthvað annað í staðinn, og halda því fram að það sé mengunarlaust. Í dag er þetta skilgreiningaratriði, sem gerir það að verkum að t.d. jarðvarmavirkjanir á Íslandi eyða miklu púðri í það að dæla aftur niður öllum þessum koltvísýring, eða kolefni í hvaða formi sem það er, sem kemur uppúr þessum borholum til þess að fá það skilgreint að virkjunin mengi lítið sem ekkert - og sé "umhverfisvæn". Jarðeðlisfræðingar hafa varað mikið við þessum æfingum, og benda á að þessi niðurdæling eigi eftir að valda risavöxnum hellum neðanjarðar. Þannig er verið að eyðileggja svæðið umhverfis virkjanirnar, eins og um þessa hrein-kola virkjun - og dirfast um leið að kalla þetta mengunarlaust!

Það gleymist líka svolítið í umræðunni hversu mikið af kolefnunum í andrúmsloftinu eiga uppruna sinn frá náttúrulegri uppgufun úr jörðinni. Það er töluvert, og alveg örugglega töluvert meira á svæðum þar sem er verið að dæla kolefnasamböndum í miklu mæli niður í jörðina.

Ef menn vilja búa til orku mengunarlaust þá þarf það að vera þannig í alvörunni, ekki bara samkvæmt einhverri skilgreiningu að það teljist ekki mengun ef kolefnunum ef dælt neðanjarðar í staðinn fyrir að leyfa þeim fara í andrúmsloftið. 


mbl.is Kolaiðnaður á krossgötum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

veggskratti

"við blasa spár um hrun á eignum almennings, greiðslubyrði heimilanna margfaldast, gjaldþrot eru hafin í atvinnulífinu með tilheyrandi atvinnuleysi og hörmungum sem bitna á launafólki."

Þetta kallar maður nú að mála skrattann á vegginn. Jújú maður hefur misst trúna á ríkisstjórninni eftir aðgerðaleysið undanfarið - en þetta er nú einum of. Guðni virðist alfarið gleyma því að vandamálið er alþjóðlegt og ekki einangrað við Ísland. Auðvitað skiptir það máli! Erlendar sveiflur skila sér í stærri sveiflum á Íslandi einfaldlega vegna eðlis fjárfestinga hjá Íslendingum. Það var svosem alveg gefið mál.

Það er fullkomlega eðlilegt að verðbólga aukist á tímum sem þessum, í niðursveiflu. Það er hinsvegar ekki hægt að segja að það hafi verið eðlilegt að verðbólgan hafi verið jafn há og hún var í uppsveiflunni sem var þar á undan. Hvernig stendur á því að meðan krónan var sterk, úrvalsvísitölur hækkuðu, atvinnuleysi í lágmarki, og þar fram eftir götunum að þá hafi verið yfirhöfuð verðbólga í landinu og stýrivextir á stöðugri uppleið? Ég veit það eðlilega ekki, en finnst bara ekki hægt að segja neitt annað en að það sé fullkomlega óásættanlegt! Hvernig komið er fyrir verðbólgu og stýrivöxtum nú er því engan veginn hægt að kenna núverandi ríkisstjórn um, heldur mun frekar síðustu ríkisstjórnum. Guðni ætti því bara að segja sem minnst - hann var hluti þeirrar stjórnar sem á sökina á því að ástandið sé eins og það er.

 Annars veit ég nú ekki hversu mikið allt er að fara til fjandans á Íslandi. Hlutirnir geta breyst fljótt.  Lítil uppsveifla erlendis getur skilað sér í stórri uppsveiflu á Íslandi. Þetta er svolítill hræðsluáróður hjá Guðna, sem eflaust er gerður til að gera lítið úr núverandi stjórn. Minnir svolítið á taktík Hillary Clinton. Veit samt ekki hvort ég treysti Guðna eitthvað frekar til að grípa í taumana - hann þyrfti þá að byrja að koma meira með hugmyndir hvernig hann myndi gera það í staðinn fyrir að benda bara stöðugt á þeir séu "lausir".

Ég verð nú samt að viðurkenna - framsóknarflokkurinn virðist mun meira sannfærandi nú með Guðna í fararbroddi en hann hefur mjög lengi verið. Allavega meira sannfærandi en núverandi ríkisstjórn sem virðist bara vera til sýnis í þetta skiptið, eða VG sem er náttúrulega bara útúr kú...


mbl.is Guðni: Það er runnin upp ögurstund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ósammála og sammála

þetta er náttúrulega bara rugl að þetta hafi verið óhjákvæmilegt. Það er alveg deginum ljósara að hefði ekki komið til þessarar stríðsyfirlýsingar af hálfu lögreglunnar (mætandi í óeirðarbúningum) þá hefði alveg verið hægt að komast hjá þessu rugli. Þetta er bara væl og enn verið að reyna að klóra yfir skítinn. Þeir klúðruðu þessum aðgerðum algjörlega og lögreglan er algjörlega valdur af ofbeldinu sem átti sér stað þarna. Ofbeldi er alltaf óþarfi, það er bara spurning um að kunna að komast hjá því. Það er eitt að missa tökin á þessu á staðnum, og annað að geta ekki drullast til að viðurkenna eftirá að þeir hefðu brugðist rangt við. Það sýnir bara að þeir hafa bara ekki kunnáttu til að takast á við svona vandamál á réttan máta og vilja ekki kunna það. Það er bara greinilegt að þeim finnst einfaldara að taka á svona vandamálum með því að beita ofbeldi. Frábært fordæmi! Nei, þetta er bara einstaklega heimskt...

 

Ég get alveg tekið undir tillögu hans um að launin ættu að vera árangurstengd. Eðlilega ættu þau ekki að vera tengd sektavilja lögregluþjóna heldur frekar hvaða árangri löggæslan í heild er að skila. Burt séð frá því hvort lögreglan gefur út 10 eða milljón sektarmiða, þá ættu laun löggæslustjórnar t.d. að lækka ef ofbeldisbrot aukast, innbrot aukast, osfrv. Þetta er klárlega snilldarhugmynd - en að sjálfsögðu mun lögreglustjórnin aldrei taka þetta í mál. Þeim finnst sennilega árangur löggæslunnar ekki í þeirra höndum. Þetta myndi þó vera stöðug áminning um að það eru einmitt þeir sem bera ábyrgð á árangri löggæslunnar.


mbl.is Það sem gerðist var óumflýjanlegt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

lítið að gera hjá mbl líka

það hlýtur líka að vera lítið að gera hjá fréttamanninum á mbl sem virkilega nennti að skrifa þessa ófrétt niður. Spurning hvort viðkomandi hafi séð sjálfan sig í þessum japanska starfsmanni...... hver veit :D
mbl.is Horfði 780 þúsund sinnum á klám í vinnunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

heimskulegt og ábyrgðarlaust

Já þetta er nú meiri hræðsluáróðurinn hjá Clinton. Hún ætlar sér greinilega að reyna að vinna þessar kosningar með því að vekja upp hræðslu í fólki við alheimsástandið og gera þeim jafnframt grein fyrir því að hún sé langhæfasti einstaklingurinn til að ráða við svoleiðis vanda, væntanlega útaf reynslu eiginmannsins. Hún er nú þegar búin að auglýsa að hún verði við símann um miðja nótt þegar "börnin okkar eru sofandi" og eitthvað hræðilegt er að gerast í heiminum. Núna er hún búin að auglýsa hvað hún ætli að gera þegar Íran geri árás á Ísrael - gjörsamlega stúta Íran í staðinn, takk! Fyrir utan að vera áframhald á hræðsluáróðrinum hennar þá er þetta  náttúrulega alveg einstaklega óábyrgt að segja svona opinberlega. Ummæli sem augljóslega er hægt að kvarta yfir, eins og Íranir eru búnir að gera. Það er eitt að hugsa hlutina og annað að auglýsa þá eins og þetta, þó ég haldi að flestir geri sér grein fyrir því að Ísrael er "off-limits" fyrir árás frá hvaða landi sem er vegna þess fárálega hlífiskjaldar sem Bandaríkjamenn halda yfir Ísrael. Ég hefði haldið að Bandaríkjamenn ættu frekar að velja sér forseta sem getur komið í veg fyrir árásir o.s.frv. í stað forseta sem virðist bara vera reiðubúinn í að svara árásum....
mbl.is Kvarta undan Clinton
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

allt álit á lögreglunni horfið

Nú þegar það er endanlega komið á hreint að lögreglan ætlar ekki að afsaka þessa hegðun sína fyrir tæpri viku síðan þá er það jafnframt endanlega komið á hreint að ég er búinn að missa allt sem heitir álit, traust, trú eða virðing á störfum lögreglunnar í Reykjavík. Fyrir 2 vikum síðan bar ég mikla virðingu fyrir lögreglunni og hennar störfum, og hafði trú á henni. T.d. hefði maður vel getað hugsað sér að ganga í lögregluna þá - en núna gæti ég svo sannarlega ekki einu sinni hugsað mér það. 

Reyndar missti ég allt álit á núverandi ríkisstjórn fyrir að styðja lögregluna eftir þetta, þannig að þeir geta gleymt mínu atkvæði næst líka. Hvernig þetta mál hefur allt verið höndlað er svo skammarlegt, að  það liggur við að maður skammist sín þessa dagana fyrir að vera Íslendingur - og þá er nú mikið sagt!

Málið er einfalt. Lögreglan á að halda uppi lögum og reglu, en á miðvikudaginn héldu þeir uppi lögum með óreglu. Þetta voru algjörlega fullkomlega óásættanleg vinnubrögð á íslenskan mælikvarða og að bera sig saman við önnur lönd er náttúrulega bara algjörlega útúr kortinu. Það bara einfaldlega gilda ekkert sömu reglur í svona litlu samfélagi - hvað þá fyrir friðsamleg mótmæli eins og þessi. Það sér það hver einasti heilvita maður!

Hefði ég verið í lögreglunni og verið skipað að mæta að mótmælunum í óeirðarbúning vopnaður piparúða hefði ég klárlega frekar sagt upp störfum en að fara að þeim fyrirmælum.  Ég hefði aldrei verið til í að vera hluti af stríðsyfirlýsingu lögreglunnar á hendur vörubílstjórum sem eru einungis að berjast fyrir sínum mannréttindum.

Lögreglan átti upptökin, það er alveg ljóst! Hvað hefur fylgt í kjölfarið? Tveir slasaðir lögreglumenn! Það var viðbúið. Þegar lögreglan sýndi meðborgurum sínum þessa þvílíku ómannlegu virðingu var alveg ljóst að sama myndi fylgja í hina áttina. Voru þeir virkilega að búast við einhverju öðru?

Ofbeldi er alltaf óafsakanlegt. Auðvitað eru lang flestir nógu heilir á geði til að hefna sín að sjálfsögðu ekki á lögreglunni. Auðvitað er það algjörlega óafsakanlegt að hefna sín að nokkru leyti á henni, því í grunninn eru þetta svosem bara ríkisstarfsmenn sem fara eftir skipunum yfirmanna sinna. En auðvitað eru alltaf einhverjir svartir sauðir inná milli og því óttast ég að því miður muni maður heyra oftar af slösuðum lögregluþjónum hér eftir. Það er klárlega ekki eitthvað sem maður vill sjást gerast!

Það er alveg klárt að aðfarir lögreglunnar voru óásættanlegar síðasta miðvikudag, en það að þeir skuli ekki enn viðurkenna það og séu enn að reyna að klóra yfir skítinn er mun verra. Lögreglan hafði tækifæri til að vinna sig upp í virðingu og lagfæra mistökin  sem áttu sér stað með þessari framkvæmd, en nýtti það ekki. Sorglegt! Ég hefði viljað sjá hausa fjúka (sjálfsögðu ekki bókstaflega, s.s. bara uppsagnir) útaf þessari framkvæmd því auðvitað liggur ábyrgðin einhversstaðar. Það að svo hafi ekki gerst bendir svolítið á að skipunin hafi komið ofar, t.d. frá Birni Bjarnasyni - sem útaf fyrir sig er skammarlegt og óvirðing við lýðræði að hann fái að vera á þingi bara gegnum einhvern pólitískan klíkuskap, hvað þá að hann sé ráðherra, maður sem hefur sennilega minni almennan stuðning en George Bush.

Ég vona bara að lögreglan sem slík verði einhventíman söm eftir þetta. Hingað til hefur mér þótt það öryggistilfinning að hafa lögregluna t.d. á vappi um bæjinn, en eftir að hafa séð aðfarir hennar gagnvart saklausum samborgurum sínum er ég frekar hræddur um að vera laminn með kylfu eða úðaður með piparúða en að finnast vera öruggur....


mbl.is Rétt aðferð við beitingu piparúða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

of mikið stolt er ekki hollt...

Ég veit að það eru margar ástæður fyrir því að taka ekki upp mynt einhliða....en stolt er ekki og má ekki vera ein ástæða fyrir því!

Svo erum við svo sannarlega ekki ein ríkasta þjóð í heimi, það er ekkert nema afvegaleiðing að tala með þeim hætti.  Hvort við séum ríkari en allar aðrar þjóðir per fólksfjölda vegur bara ansi lítið á móti þeirri staðreynd að sá fólksfjöldi telur einungis um 300þús manns.

 


mbl.is Ein ríkasta þjóð í heimi tekur ekki einhliða upp mynt annarrar þjóðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

fyrirmyndarframtak

loksins loksins sjá menn sér fært að hugsa lengra en til annars stafsins í stafrófinu, Ál. Þetta er nákvæmlega það sem ég hef lengi viljað sjá rísa á íslandi frekar en áframhaldandi lágtækni áliðnað. Ég hef séð fyrir mér lengi að notkun á koltrefjum myndi aukast gríðarlega, og yrði ekki einungis notað í formúlu1 bílum eins og fyrst. Nú þegar eru næstu kynslóðar farþegaþotur að nota þetta í töluverðu magni, og mér finnst viðbúið að innan einhverra ára verði bílarframleiðendur komnir í sömu spor. Í það minnsta sér maður ekki að þörf á koltrefjum geti nokkuð annað en aukist.

Svo er líka viðbúið að kolrör (carbon nanotubes) eða annað form af grafín verði notuð í framtíðinni, og þá kemur reynsla frá koltrefjum sér vel. Held það sé allavega mun sniðugra að vera í alvöru hátækni, fremur en þessari þykjustu hátækni eins og áliðnaðurinn vill meina, og þá er nú koltrefjaframleiðsla gríðarlega sniðug hugmynd ...


mbl.is Undirbúa byggingu koltrefjaverksmiðju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

klúðrið væri að hætta við

þetta er einfaldlega alltof seint, og nú þegar verkefnið er komið á þennan veg yrði algjört klúður að hætta við. Ferlið þyrfti að byrja uppá nýtt, og það má alveg bóka það að þessi peningur sem færi þá ekki í Bakkafjöru myndi ekki skilar sér nema að hluta í það verkefni. 

Þessi undirskrifarlisti er eiginlega ekki mikilvægur nema bara til þess að sýna að eyjamenn eru í meirihluta ekki sannfærðir um ágæti þessarar framkvæmdar og að það hefði í það minnsta átt að skoða kosti og galla hraðskreiðrar ferju áður en Bakkafjara varð fyrir valinu. Það var náttúrulega verst þegar eyjamönnum var neitað um íbúakosningu um framtíð samgangna af bæjaryfirvöldum - og hávær mótmælin hefðu átt að koma fram þá en ekki núna þegar allt of seint í rassinn gripið.

Þessi listi má hinsvegar alls ekki hafa nein áhrif á Bakkafjöruframkvæmdina, og ég vona innilega að ráðherra grípi ekki á agnið. Það yrði algjört klúður fyrir samgöngumál Vestmannaeyja, og kæmi engum til góðs. Það er hinsvegar allt annað mál hvort menn velti fyrir sér hvort ekki hefði verið betra að velja hraðskreiðari Herjólf í stað Bakkafjöru, svo lengi sem menn gera sér grein fyrir því að það er búið að velja og það verður ekki aftur snúið.

Ef svo ólíklega vill til að Bakkafjara verði til tjóns, þá er skaðinn þegar skeður... 


mbl.is Of seint segir ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

besservissinn

Höfundur

besservissinn
besservissinn
veit allt um ekkert, eða ekkert um allt
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband